Framúrskarandi 20152022
Um þessar mundir berast úr öllum áttum tilkynningar fyrirtækja sem samkvæmt Creditinfo teljast framúrskarandi. Gott og vel. Nú þegar Eldvarnamiðstöðin og Rafborg hljóta þessa viðurkenningu þykir okkur vert að staldra við og hugleiða hvað þetta í þýðir í raun.
Einhver stakk upp á því að fletta þessu upp í orðabók og samkvæmt slíkum ritum skal nota orðið yfir það sem þykir einstakt, glæsilegt, óvenjulegt, nú eða er talið fyrsta flokks. Við erum því eðlilega afar stolt af viðurkenningunni og velkjumst ekki í vafa um að öll þessi orð má heimfæra á okkar starfsemi á einn eða annan hátt.
Þegar við hugsum um orðið óvenjulegt má benda á okkar breiða vöruúrval þar sem fjölbreyttur viðskiptavinahópur finnur allt frá rafhlöðum í heyrnartæki upp í fullbúna slökkvibíla, að ógleymdu sprengiefninu sem við sérhæfum okkur í að flytja og blanda fyrir stórverktaka. Það finnst okkur framúrskarandi.
Glæsileikann sjáum við í fullbúnum vefverslunum okkar, www.rafborg.is og www.oger.is þar sem viðskiptavinir geta fljótt og örugglega fundið flestar vörur sem við bjóðum, gengið frá kaupum og skilgreint afhendingarmáta. Þetta finnst okkur framúrskarandi þjónusta þótt viðskiptavinir geti kannski ekki enn pantað sér neyðarbíl á netinu.
Okkur finnst það eiginlega óviðjafnanlegt að Ólafur Gíslason & Co./Eldvarnamiðstöðin og Rafborg hafa óslitið frá því að viðurkenningin var veitt í fyrsta skipti verið framúrskarandi fyrirtæki. Við erum upp með okkur og finnst það, uhhh… framúrskarandi!
Í ár fengum við köku sem við átum upp til agna með bestu lyst og þótti hún ansi sæt áminning um okkar fyrsta flokks viðskiptavini sem við leggjum okkur fram við að þjónusta á degi hverjum.
Við þökkum framúrskarandi viðskipti í gegnum tíðina og hlökkum til að heyra frá þér.