Við erum flutt og að mestu búin að koma okkur fyrir

Við höfum nú opnað stærri verslun að Sundaborg 7 og erum þar ásamt Ólafi Gíslasyni & Co hf Eldvarnamiðstöðinni en þeir eru með í verslunni ýmsan eldvarnabúnað eins og slökkvitæki, reykskynjara, gasskynjara, eldvarnateppi, brunaslöngujól, viðvörunarkerfi, innbrotaviðvörunarkerfi og margt fleira til eldvarna.

Enn er ýmislegt eftir eins og smíðavinna og biðjumst við velvirðingar meðan hún stendur yfir. Eins á eftir að skipta um aðalhurð en hún er víst ekki væntanleg fyrr en í maí og hlýtur að verða mjög glæsileg miðað við afgreiðslutímann.

Í fyrri viku fengum við heimsókn frá einum birgja okkar GP Batteries og er það von og ósk okkar að  samstarf okkar muni aukast á næstu mánuðum en  innflutningur okkar á GP rafhlöðum hefur aukist verulega en úrval rafhlaðna frá þeim er mikið. Flest allar símarafhlöður og sérrafhlöður koma frá GP og einnig höfum við aukið innflutning og úrval af Greencell brúnsteinsrafhlöðum (þessar venjulegu) og Super og Ultra Alkaline rafhlöðum þaðan.

Upp kom í viðræðum sú staðreynd og það ættu menn að skoða að nú seinni árin eru seldar Alkaline 9V rafhlöður í reykskynjara en nýjir skynjarar eru velflestir seldir með venjulegum 9V rafhlöðum. Venjulegar rafhlöður  eru byggðar upp þannig að orkan í þeim fellur ekki hratt í lokin heldur er orkukúrfan mjög aflíðandi sem þýðir að sá eiginleiki reykskynjara að láta vita að rafhlaða sé útbrunnin er nokkuð langur (sumarleyfi eru stundum nokkuð löng). Alkaline rafhlaðan er byggð þannig að orkukúrfan fellur mjög bratt í lokin og það segir sig sjálft að viðvörunarbíbið er því í skemmri tíma þegar alkaline er notað.

Það er alltaf góður siður að prófa reykskynjara þegar heim er komið eftir langa fjarveru.

 

Sundaborg 7